BYGGT ÁRIÐ 1801

HÚSIÐ var byggt árið 1801 af Ísleifi Einarssyni sem þá hafði verið skipaður yfirdómari í nýstofnuðum Landsyfirrétti. Talið er að þetta hús sé það fyrsta sem byggt var við Austurstræti. Það er byggt úr furustokkum og er líklega af bolhúsagerð.

Ráðamönnum í konungsgarði þótti svo vel hafa tekist með bygginguna að Ísleifi voru veitt peningaverðlaun. Undirstöður hússins voru hlaðnar úr holtagrjóti og grunnflötur hússins 11×21 álnir og sneri lengri hliðin að Austurstræti. Sex gluggar voru á þeirri hlið og voru aðaldyr hússins á miðri hliðinni.

Aðalstofan var í norðvesturhorninu, inn af henni var herbergi. Í norðausturhorninu var herbergi sem notað var fyrir skrifstofu og þar inn af herbergi sem náði að suðurvegg hússins. Í suðausturhorninu var borðstofa en í miðju húsinu að sunnan var eldhús.

Árið 1805 seldi Ísleifur Trampe greifa húsið sem þá var orðinn stiftamtmaður yfir Íslandi. Trampe lét gera miklar endurbætur á eigninni t.d. nýja eldstó sem í þurfti 700 múrsteina. Talið er fullvíst að þessi eldstó hafi varðveist og sé sú sama og enn er í húsinu.

Trampe lét setja nýja klæðningu á þak og vesturgafl hússins, smíða gluggahlera fyrir flesta glugga og endurbætti vatnsbrettin. Hann lét einnig setja skraut á húsið eins og við aðaldyrnar.

Jörgen Jörgensen (hundadagakonungur) settist að í húsinu árið 1809, þann stutta tíma sem hann hafði völd á Íslandi. Einnig bjó Castenskjold stiftamtmaður þar og Moltek greifi sem flutti íbúð stiftamtmanns í tukthúsið við Arnarhól árið 1819.

Aðsetur Landsyfiréttar til 1873

Landsyfirréttur sem hafði verið í Austurstræti 4 flutti í húsið og var í húsinu til ársins 1873. Þá var búið að byggja Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og flutti Landsyfirréttur þangað á efri hæðina. Dómsalur Landsyfirréttar var í vesturhluta Aðalstrætis 22, en í austurenda bæjarþingstofa. Þá höfðu Reykvíkingar á að skipa tveimur lögregluþjónum og höfðu þeir báðir íbúðir í húsinu hvor á sinni hæðinni.

Uppi var fangageymsla sem kölluð var Svartholið vegna þess hve dimmt var þar. Í þessu húsi voru hin vinsælu píuböll haldin í dómsal yfirréttar og mun Hendrichsen lögegluþjónn hafa staðið fyrir þeim. Sjálfur lék hann fyrir dansi á flautu og gekk sá orðrómur að hann hafi þá ekki verið alsgáður. En eitt er víst að ekki voru allir sama sinnis um framtak lögregluþjónsins og þannig fór að hann fékk bágt fyrir frá ráðamönnum og var vikið úr embætti fyrir uppátækið.

Næst á eftir Landsyfirrétti var Prestaskólinn í húsinu sem áður hafði verið í Sívertsenhúsi. Kennslustofur voru á neðri hæðinni en umsjónarmaður skólans bjó á efri hæðinni. Prestaskólinn var í húsinu til ársins 1911 en þá tók guðfræðideild Háskólans til starfa í Alþingishúsinu við Austurvöll.

Í bókinni Kvosin eftir Hjörleif Stefánsson og Guðnýju Gerði Gunnarsdóttur segir svo: „Danskur herflokkur sem sendur var til Íslands vegna Þjóðfundarins árið 1851 hafði vetursetu í húsinu. Var þá rauður varðklefi fyrir framan húsið og vopnaður vörður þar dag og nótt.“

Höfundur: Freyja Jónsdóttir